Hoppa yfir valmynd
17. maí 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Verknámsaðstaða Verkmenntaskólans á Akureyri stækkar um allt að 1.500 fermetra

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA, Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, Þórunn Sif Harðardóttir sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar, Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri Grýtubakkahrepps og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri Hörgársveitar undirrita samning um stækkun VMA í Gryfjunni í dag - mynd

Allt að 1.500 fermetra viðbygging fyrir verk- og starfsnám mun rísa við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA). Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði samning þess efni við sveitarfélögin við Eyjafjörð í dag.

Samningurinn staðfestir samkomulag ríkis og sveitarfélaganna um fjármögnun verkefnisins og eru næstu skref undirbúningur, hönnun og bygging. Uppbygging verk- og starfsnáms er eitt af stefnumálum Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, og ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Stefnt er að því að byggja samtals 12.000 fermetra fyrir verk- og starfsnám um allt land auk nýrra höfuðstöðva Tækniskólans til að mæta aukinni aðsókn á undanförnum árum.

„Mikil eftirspurn er í starfsnám og þarf á hverju ári að vísa umsækjendum frá. Við erum með lægsta hlutfall nemenda á Norðurlöndum í starfsnámi. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum og atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk. Stækkun Verkmenntaskólans á Akureyri er mikilvægur áfangi í eflingu starfsnáms á Íslandi til að mæta þörfinni og mikilvæg innspýting í skólasamfélagið á Akureyri,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, en með stækkun verknámsaðstöðu Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sem samið var um í síðasta mánuði mun aðstaða til verk- og starfsnáms á norðanverðu landinu aukast um samanlagt allt að 5.800 fermetra.

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir annast frumathugun, framkvæmd og eftirlit. Stofnkostnaður skiptist þannig að ríkissjóður mun greiða 60% en sveitarfélögin við Eyjafjörð 40%.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum